Hoppa yfir valmynd

PFS ákvarðar ný heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum

Tungumál EN
Heim
31. október 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 24/2014 um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum á heildsölumarkaði (markaður 7). Mælt er fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals á árinu 2015.

Samkvæmt verðsamanburðinum skal hámarksverðið lækka í 1,52 kr./mín um næstu áramót. Framkvæmd og niðurstöðu verðsamanburðarins er nánar lýst í ákvörðuninni sjálfri. Núverandi lúkningarverð, sem gildir á árinu 2014, var ákvarðað með ákvörðun PFS nr. 25/2013 frá 31. október 2013 en þá kvað stofnunin á um að lúkningarverð skyldu lækkuð úr 4 kr./mín. í 1,64 kr./mín., frá og með 1. janúar 2014.

Ákvarðanir PFS um hámarks lúkningarverð byggja á ákvörðun nr. 3/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Samkvæmt þeirri ákvörðun skal jafna og lækka hámarks lúkningarverð, þ.e. verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi.

Lúkningarverð allra farsímarekenda hér á landi hafa verið jöfn frá 1. janúar 2013, en höfðu um árabil verið ójöfn og mun hærri en þau eru í dag. Skv. ákvörðun 3/2012 skal PFS framkvæma árlegan verðsamanburð til að ákvarða lúkningarverð og skal ákvörðunin birt eigi síðar en 1. nóvember ár hvert, að undangengnu innanlandssamráði og samráði við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita þeirri aðferðarfræði við kostnaðargreiningu sem nánar er lýst í ákvörðun PFS nr. 3/2012.

PFS hyggst á næstu mánuðum endurskoða ákvörðun sína nr. 3/2012 um markað 7. Þá gefst markaðsaðilum m.a. færi á að tjá sig um aðferðarfræði PFS við ákvörðun lúkningarverða frá og með 1. janúar 2016. Búast má við endanlegri ákvörðun í því máli um mitt ár 2015.

Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðaukum:

Ákvörðun PFS nr. 24/2014 um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (Markaður 7)

Til baka