Hoppa yfir valmynd

Norrænt frumkvæði að því að bæta hag neytenda á fjarskiptamarkaði

Tungumál EN
Heim
27. maí 2014

Forstjórar eftirlitsstofnana Norðurlandanna á sviði fjarskipta hafa ákveðið að mynda sameiginlegan vinnuhóp sem hefur það markmið að styrkja réttindi neytenda á þessu svæði. Vinnuhópurinn mun leita nýrra leiða til að leysa ýmis mál sem snúa að neytendum og m.a. mun áhersla verða lögð á bætta almenna upplýsingagjöf til neytenda, hlutleysi neta og upplýsingar um útbreiðslu farsímakerfa.

„Við eigum við samskonar viðfangsefni að etja og erum með svipaðar markaðsaðstæður í löndum okkar, sem gefur okkur mikla möguleika til að finna sameiginlegar lausnir á þeim vandamálum sem blasa við neytendum“, segir í sameiginlegri yfirlýsingu norrænu forstjóranna

Norrænir neytendur reka sig að miklu leyti á sömu vandamál þegar þeir kaupa eða nota síma og háhraðanet. Ennfremur eru markaðsaðstæður að miklu leyti þær sömu, og stærstu fyrirtækin eru oft til staðar í fleiri en einu af þessum löndum. Þessar aðstæður mynda góðan grundvöll fyrir árangursríkri samvinnu milli eftirlitsstofnananna á þessu sviði.

Forstjórar fjarskiptaeftirlitsstofnana Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hittast reglulega til að ræða sameiginleg málefni. Að þessu sinni var fundurinn haldinn af Póst- og fjarskiptastofnun Svíþjóðar í Stokkhólmi þann 21. maí sl.

Undir yfirlýsinguna skrifa 
Betina Hagerup, forstjóri DBA, Danmörku
Asta Sihvonen-Punkka, forstjóri FICORA, Finnlandi
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri PFS, Íslandi
Torstein Olsen, forstjóri NPT, Noregi
Göran Marby, forstjóri PTS, Svíþjóð

"Með þessum vinnuhópi verður bætt við mikilvægum þætti í öflugt samstarf norrænu fjarskiptaeftirlitsstofnananna, neytendum til hagsbóta." Segir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri PFS.

Eitt af því sem forstjórarnir leggja áherslu á er að bæta aðgengi neytenda að upplýsingum um útbreiðslu farsímakerfa, en PFS hóf einmitt að birta slíkar upplýsingar á vef sínum í upphafi þessa árs.

 

Til baka