Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði um reglur um skráningu og miðlun símaskrárupplýsinga

Tungumál EN
Heim
19. maí 2014

Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um reglur um skráningu og miðlun upplýsinga um áskrifendur sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum og samræmt XML skráarsnið fyrir miðlun upplýsinganna.

Setning þessara reglna er liður í vinnu PFS sem staðið hefur frá því í júní 2013. Þá kallaði stofnunin eftir samráði við hagsmunaaðila vegna endurskoðunar á alþjónustukvöðum Já Upplýsingaveitna hf., breytingu á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingu á númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur. Í því samráðsskjali var m.a. áréttuð sú skylda fjarskiptafyrirtækja, sem úthluta símanúmerum, að vera í stakk búin að afhenda númera- og vistfangaskrár sínar um áskrifendur, sbr. 45. gr. fjarskiptalaga, á kostnaðargreindu verði. En fram til þessa hafa þau ekki geta tryggt réttleika ákveðinna grunnupplýsinga sem lagaákvæðið kveður á um. Með aðgerðum stofnunarinnar er leitast við að tryggja að aðili sem hyggst reka slíka upplýsingaþjónustu geti hafið starfsemi hennar á sama grundvelli og Já upplýsingaveitur hf. hafa gert um árabil. Í fyrrnefndu samráðsskjali var jafnframt að finna tímasetta áætlun PFS um hvernig breytingunum skyldi komið á en nýju fyrirkomulagi er ætlað að taka gildi sumarið 2014.

Með setningu reglna þessara er ætlunin að tryggja bæði samræmda skráningu grunnupplýsinga um áskrifendur, sem úthlutað hefur númerum í fastlínu- og farsímakerfum, sem og skilvirka miðlun þeirra í þeim tilgangi að gefa út símaskrár eða fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer.  Reglurnar ná til fjarskiptafyrirtækja sem úthluta símanúmerum í fastlínu- og farsímakerfum og aðila sem gefa út símaskrár eða starfrækja upplýsingaþjónustur um símanúmer. Þær kveða á um gerð númera- og vistfangaskráa sem skulu innihalda skilgreindar grunnupplýsingar um áskrifendur, með hvaða hætti miðlun upplýsinga úr skránum skuli vera, möguleika fjarskiptafyrirtækja að útvista gerð númera- og vistfangaskrár og lausn deilumála.

Eftir setningu reglana verður fjarskiptafyrirtækjum skylt að halda númera- og vistfangaskrá um þá áskrifendur sína sem vilja birtast í gagnagrunni símaskrár. Þá verður þeim skylt að afhenda rauntíma upplýsingar til aðila sem hyggur á útgáfu símarskrár eða rekstur upplýsingaþjónustu um símanúmer. Númera- og vistfangaskránni skal vera miðlað á samræmdu XML skráarsniði, sem birt verður á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar. Það býður upp á einfaldar samkeyrslur við helstu upplýsinga- og gagnagrunnskerfi, nema hlutaðeigandi aðilar komi sér saman um annað form, svo lengi sem það samræmist ákvæði 45. gr. fjarskiptalaga. Upplýsingunum skal svo miðlað í aðgangsstýrðri vefþjónustu fjarskiptafyrirtækjanna þar sem aðilar sem eiga að fá afhentar upplýsingar úr númera- og vistfangaskrá geta sótt upplýsingarnar í samræmi við ákvæði reglnanna.

PFS hvetur alla sem telja að þeir eigi hagsmuna að gæta við setningu reglnanna að senda inn athugasemdir sínar og umsagnir um samráðsskjölin sem hér eru birt, bæði reglurnar sjálfar og upplýsingaskema fyrir samræmt skráarsnið.

Frestur til að skila inn athugasemdum og umsögnum er til 2. júní nk.

Þar sem PFS viðhafði óformlegt samráð við alla helstu hagsmunaaðila í apríl sl. hyggst stofnunin ekki veita frekari fresti til að skila inn athugasemdum.

Athugasemdir skulu berast annað hvort á netfangið unnur(hjá)pfs.is og/eða bréflega til stofnunarinnar að Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík.

PFS áskilur sér rétt til að birta allar innsendar athugasemdir í heild sinni.

Sjá samráðsskjölin:

Drög að reglum um skráningu og miðlun upplýsinga um áskrifendur sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum
Drög að samræmdu XML skráarsniði fyrir upplýsingar

Til baka