Hoppa yfir valmynd

PFS efnir til samráðs um heimild Mílu til að veita nýja þjónustu

Tungumál EN
Heim
13. maí 2014

Með erindi frá Mílu, dags. 25. apríl sl., barst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) ósk Mílu um samþykki stofnunarinnar fyrir breytingu á viðmiðunartilboði félagsins um bitastraumsaðgang að því er varðar tvenns konar nýja þjónustu, þ.e. VDSL+ tengingar annars vegar og fyrir lén og tengiskil vegna samtenginga við xDSL og GPON kerfi Mílu á aðgangsleið 3 hins vegar.

Fram kemur í máli Mílu að fyrirhugað sé að bjóða nýja þjónustu, VDSL+, sem hentar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki fyrir gagnaflutning og byggð er á samsvarandi tækni og ADSL+ tengingar. Hraði til notanda er 50 Mb/s og frá notanda 25 Mb/s.

Jafnframt er fyrirhugað að bjóða internetþjónustuaðilum tengingu á milli viðkomandi þjónustuaðila og burðarnets. Um er að ræða verðskrá og skilmála vegna uppsetninga og reksturs á lénum og tengiskilum í tengslum við samtengingu internetþjónustuaðila við xDSL og GPON kerfi Mílu á aðgangsleið 3.

Meginreglan er sú að Mílu er óheimilt að hefja veitingu nýrrar heildsöluþjónustu á þessum markaði sem ekki hefur verið birt til kynningar með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Einnig þarf að liggja fyrir samþykki PFS með sérstakri ákvörðun að undangengnu innanlandssamráði og samráði við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). PFS mun á næstunni vinna að þessum málum og efna til umræddra samráða. Ljóst er að endanleg ákvörðun kemur ekki til með að líta dagsins ljós fyrr en með haustinu.

PFS telur þó að sú þjónusta sem hér er kynnt til sögunnar sé mikilvæg markaðnum og hyggst því leggja til að Míla fái heimild til að hefja veitingu hennar áður en framangreind ákvörðun PFS verður birt. Ef ekki koma fram málefnaleg andmæli markaðsaðila gagnvart þessum áformum innan neðangreinds frests hyggst PFS því heimila Mílu að hefja veitingu umræddrar þjónustu. Munu þá þau verð og þeir skilmálar sem tilgreindir eru í viðaukunum gilda þar til endanleg ákvörðun PFS liggur fyrir í kjölfar yfirferðar PFS á kostnaðargreiningu og skilmálum Mílu, innanlandssamráðs og samráðs við ESA.

Hafi markaðsaðilar málefnaleg andmæli fram að færa við beiðni Mílu um gildistöku framangreinda viðauka við viðmiðunartilboð félagsins um bitastraumsaðgang skulu athugasemdir berast með pósti eða með tölvupósti til Póst- og fjarskiptastofnunar, stílaðar á Huldu Ástþórsdóttur (hulda(hjá)pfs.is) ekki síðar en 27. maí 2014.

Athygli er vakin á því að markaðsaðilar fá síðar tækifæri til að gera efnislegar athugasemdir eða breytingartillögur við umrædda viðauka. Það samráð sem hér er efnt til er einungis hugsað til að aðilar geti komið með málefnaleg andmæli fyrir því að viðaukarnir öðlist gildi áður en endanlega ákvörðun PFS liggur fyrir.

Sjá samráðsskjölin (PDF skjöl):
  • Viðauki 6 - Samtengingar internetþjónustuaðila við xDSL og GPON kerfi Mílu vegna aðgangsleiðar 3
  • Viðauki 7 -  VDSL+ 

 

 

Til baka