Hoppa yfir valmynd

Míla áfram með markaðsráðandi stöðu á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína

Tungumál EN
Heim
6. maí 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú ákvörðun sína nr. 8/2014, markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6 skv. tilmælum ESA frá 2008, var áður markaður 13).

Niðurstaða PFS er að Míla er áfram með umtalsverðan markaðsstyrk á þessum markaði eins og fyrirtækið var með samkvæmt markaðsgreiningu árið 2007, sbr. ákvörðun PFS nr. 20/2007. Í framangreindri ákvörðun frá 2007 var Síminn einnig í umræddri stöðu en öll leigulínustarfsemi Símans á heildsölustigi hefur nú verið færð yfir til Mílu. Því er Síminn ekki útnefndur í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði. Þær kvaðir sem lagðar voru á Mílu með umræddri ákvörðun frá 2007 halda því gildi sínu með tilteknum viðbótum með þessari nýju ákvörðun.
Þrátt fyrir innkomu Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og fleiri staðbundinna netrekenda er markaðshlutdeild Mílu enn um 70-80% samkvæmt algengustu viðmiðum um markaðshlutdeild og eru enn verulegar aðgangshindranir ríkjandi á viðkomandi markaði að mati PFS.

Lúkningarhluti leigulína er skilgreindur sem aðgangsmarkaður á heildsölustigi fyrir stöðuga afkastagetu á merkjasendingum á þeim hluta fjarskiptanetsins þar sem notandinn hefur einn aðgang að allri tengingunni. Markaðurinn liggur á milli notandans (heimili eða fyrirtæki) og hnútpunkta/símstöðva og tengja notendur við einn punkt þar sem stofnlínukerfið tekur við. Þessi sambönd eru leigð öðrum fjarskiptafyrirtækjum sem gerir þeim kleift að veita þjónustu á ýmsum smásölumörkuðum eins og t.d. talsímaþjónustu, internetþjónustu og aðra gagnaflutningsþjónustu. Markaðurinn nær yfir bæði stafrænar og hliðrænar línur og sambönd með allri mögulegri tækni og flutningsmiðlum. Flutningsmiðlar geta verið ljósleiðari, kopar og þráðlaus sambönd.

Heildsölumarkaður fyrir leigulínur skiptist í tvennt, þ.e. í lúkningarhluta (nú markaður 6) og stofnlínuhluta (áður markaður 14). Síðastgreindur markaður nær yfir tengileiðir milli símstöðva og dreifingarstaða. PFS reiknar með því að sá markaður fari í innanlandssamráð í vor og að endanleg ákvörðun liggi fyrir með haustinu.

Ákvörðunardrög í máli því sem hér er til umfjöllunar var sent til samráðs við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og aðrar fjarskiptaeftirlitsstofnanir á EES-svæðinu, eins og lög gera ráð fyrir. ESA gerði ekki efnislegar athugasemdir við ákvörðunardrögin, en gagnrýndi þó þann langa tíma sem leið á milli markaðsgreininga á viðkomandi markaði og þann langa tíma sem það tók Mílu og Símann að uppfylla verðkvöð þá sem lögð var á félögin með framangreindri ákvörðun PFS frá 2007.

Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðaukum: (PDF skjöl)

  • Ákvörðun PFS nr. 8/2014 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína
    • Viðauki A  - Markaðsgreining á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína
    • Viðauki B  - Niðurstöður úr samráði Póst- og fjarskiptastofnunar um frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína
    • Viðauki C  - Álit ESA

 

Til baka