Hoppa yfir valmynd

PFS kveður á um breytingar á viðmiðunartilboðum Símans á heildsölumörkuðum talsíma

Tungumál EN
Heim
31. október 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 24/2013 um breytingar á viðmiðunartilboðum Símans um endursöluaðgang að talsímaneti og um samtengingu talsímaneta. Ákvörðun PFS er tekin í kjölfar innanlandssamráðs og samráðs við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Ákvörðunin sækir stoð sína í ákvarðanir PFS nr. 8/2013 (markaður 1) og nr. 36/2012 (markaðir 2 og 3). Þar var sú kvöð m.a. lögð á Símann að birta viðmiðunartilboð um heildsöluaðgang að talsímaneti sínu. Ný viðmiðunartilboð eða breytingar á fyrri tilboðum tækju ekki gildi fyrr en með samþykki PFS, auk þess sem stofnunin gæti að eigin frumkvæði mælt fyrir um breytingar á viðmiðunartilboðum.

Um er að ræða tvö viðmiðunartilboð Símans. Annars vegar viðmiðunartilboð um endursöluaðgang að talsímaneti félagsins og hins vegar samtengingu talsímaneta. Helstu breytingar sem PFS mælir fyrir um eru:

1. Tiltekin verð Símans hækka til samræmis við nýlega hækkun verða Mílu frá 1. nóvember nk.
2. Tiltekin afsláttarkjör sem Síminn lagði til eru samþykkt.
3. Veruleg vanskil teljast nú tveimur mánuðum frá eindaga í stað þriggja mánaða
4. Símanum ber að birta verðskrá sína í viðmiðunartilboði um endursöluaðgang
5. Síminn skal uppfæra kostnaðargreiningu sína fyrir forval, fast forval og fast forval – einn reikningur árlega og senda PFS til yfirferðar og samþykktar

Ákvörðunin tekur gildi frá og með 1. nóvember 2013 nema sú breyting sem varðar veruleg vanskil, en hún öðlast ekki gildi fyrr en um næstu áramót.

Sjá nánar:
Ákvörðun PFS nr. 24/2013 um breytingar á viðmiðunartilboðum Símans um endursöluaðgang að talsímaneti og um samtengingu talsímaneta (markaðir 1-3) (PDF)

Viðauki við ákvörðun 24/2013 – Álit ESA (PDF)


Til baka