Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um nýtingu 2,6 GHz tíðnisviðsins

Tungumál EN
Heim
4. október 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um nýtingu á 2,6 GHz tíðnisviðinu (2.500 – 2.690 MHz).
Um er að ræða 23 rásir sem hver er með 8 MHz bandbreidd, eða samtals 184 MHz. Þetta tíðnisvið er í dag fyrst og fremst nýtt fyrir MMDS sjónvarpsþjónustu af hálfu Fjarskipta hf. (Vodafone), en auk þess hafa Ríkisútvarpið ohf. og Kristniboðskirkjan hf. (Omega) heimild til að nýta lítinn hluta tíðnisviðsins. Gildistími allra þessara tíðniheimilda er hinn sami og renna þær út þann 27. júní 2014.

Í júní 2011 birti PFS ákvörðun sína nr. 18/2011 þar sem þágildandi tíðniheimild félagsins var framlengd um þrjú ár, þ.e. til 27. júní 2014. Í ákvörðuninni var tilgreindur sá möguleiki að félagið fengi að halda hluta tíðnisviðsins fyrir MMDS þjónustu að gildistíma loknum, yrði þess óskað og ef samráð um tíðnistefnu stofnunarinnar leiddi ekki í ljós að sóst yrði eftir öllu tíðnisviðinu fyrir háhraða farnetsþjónustu. Þessi niðurstaða PFS var staðfest af úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála með úrskurði í máli nr. 3/2011 , að því þó viðbættu að úttekt á hagsmunum neytenda og fjarskiptafyrirtækja leiddi í ljós að slík framlenging væri réttlætanleg.

Nú liggur fyrir að Fjarskipti hf. (Vodafone) hafa óskað eftir framlengingu á núgildandi tíðniheimild sinni til ársins 2020. Í samræmi við ákvæði 9. gr. laga, nr. 81/2003 , um fjarskipti, sem og framangreinda ákvörðun stofnunarinnar og úrskurð úrskurðarnefndar kallar PFS nú eftir samráði við hagsmunaaðila um nýtingu á 2,6 GHz tíðnisviðinu.

Í samráðsskjalinu er í stuttu máli fjallað um sögulega nýtingu tíðnisviðsins, samræmingaráætlun Evrópusambandsins fyrir tíðnisviðið, sem gerir ráð fyrir háhraða farnetsþjónustu á tíðnisviðinu, og gerð er grein fyrir reynslu Íra í nýloknu samráðsferli þeirra fyrir tíðnisviðið. Þá er farið yfir þau skilyrði sem uppfylla þarf fyrir áframhaldandi nýtingu tíðnisviðsins fyrir MMDS þjónustu og gerð grein fyrir niðurstöðum samráðs um tíðnistefnu PFS sem fram fór árið 2011 og uppboðs á 800 MHz og 1800 MHz tíðniheimildum sem haldið var á ársbyrjun 2013 . Þá er leitast við að gefa sem skýrasta mynd af þeim þáttum sem verða ráðandi við ákvarðanatöku stofnunarinnar. Því næst er sérstökum spurningum beint til allra hagsmunaaðila.

Þátttaka hagsmunaaðila og upplýsingagjöf þeirra er mikilvægur grundvöllur fyrir vandaða og upplýsta ákvarðanatöku af hálfu stofnunarinnar. Því hvetur stofnunin sem flesta að skila inn athugasemdum sínum og svörum við þeim spurningum sem settar eru fram í meðfylgjandi samráðsskjali.

Frestur til að skila inn athugasemdum og umsögnum er til og með 31. október n.k.

Athugasemdir skulu berast annað hvort á netfangið unnur(hjá)pfs.is og/eða bréflega til stofnunarinnar að Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík.

PFS áskilur sér rétt til að birta allar innsendar athugasemdir í heild sinni

Sjá samráðsskjalið í heild:
Samráð Póst- og fjarskiptastofnunar um nýtingu 2,6 GHz (2.500 – 2.690 MHz) tíðnisviðsins
(PDF)


Til baka