Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um breytingar á viðmiðunartilboðum Símans á heildsölumörkuðum talsíma

Tungumál EN
Heim
27. september 2013

Þann 26. september 2013 sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um breytingar á viðmiðunartilboðum Símans um endursöluaðgang að talsímaneti og um samtengingu talsímaneta (markaðir 2 og 3) til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Ákvörðunardrögin sækja stoð sína í ákvörðun PFS nr. 36/2012 á umræddum mörkuðum. Þar var sú kvöð m.a. lögð á Símann að birta viðmiðunartilboð um heildsöluaðgang að talsímaneti sínu. Ný viðmiðunartilboð eða breytingar á fyrri tilboðum tækju ekki gildi fyrr en með samþykki PFS, auk þess sem stofnunin gæti að eigin frumkvæði mælt fyrir um breytingar á viðmiðunartilboðum.

Um er að ræða tvö viðmiðunartilboð Símans. Annars vegar viðmiðunartilboð um endursöluaðgang að talsímaneti félagsins og hins vegar um samtengingu talsímaneta. Helstu breytingar sem PFS hyggst mæla fyrir um eru:

1. Tiltekin verð Símans hækka í samræmi við nýlega hækkun verða Mílu
2. Tiltekin afsláttarkjör sem Síminn lagði til eru samþykkt.
3. Veruleg vanskil teljast nú tveimur mánuðum frá eindaga í stað þriggja mánaða
4. Símanum ber að birta verðskrá sína í viðmiðunartilboði um endursöluaðgang
Drög að ofangreindri ákvörðun voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í dag með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka.

Reiknað er með því að endanleg ákvörðun PFS liggi fyrir í lok október nk. og taka breytingarnar þá gildi frá og með 1. nóvember nk. nema breytingin varðandi veruleg vanskil sem öðlast ekki gildi fyrr en um næstu áramót.

Eftirfarandi skjöl voru send til ESA:
Íslensk útgáfa af ákvörðunardrögunum:

 

Til baka