Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um verðsamanburð vegna lúkningarverða á markaði 7 (lúkning símtala í farsímanetum)

Tungumál EN
Heim
26. september 2013

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um verðsamanburð á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. PFS hyggst mæla fyrir um að niðurstaða verðsamanburðarins verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals á árinu 2014, í stað kostnaðargreiningar Símans sem PFS samþykkti árið 2010. Þau verð sem umrædd kostnaðargreining Símans leiddi í ljós, kr. 4 kr./mín, skulu gilda út árið 2013. Samkvæmt framangreindum verðsamanburði skal hámarksverðið lækka í 1,64 kr./mín um næstu áramót.

Í ákvörðun PFS nr. 3/2012, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7), var kveðið á um að PFS myndi framkvæma umræddan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember ár hvert (á gildistíma ákvörðunarinnar), sem myndi vera grundvöllur hámarks lúkningarverðs íslenskra farsímafyrirtækja. Með ákvörðun PFS nr. 32/2012 frá 1. nóvember 2012 framkvæmdi PFS umræddan verðsamanburð í fyrsta sinn. Þar kom fram að lúkningarverð skyldu lækkuð úr 4 kr./mín í 1,66 kr./mín frá og með 1. júlí 2013 út það ár.

Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2012 frá 30. júní sl. ógilti nefndin þann hluta ákvörðunar PFS er snéri að gildistökunni þann 1. júlí 2013 og lagði fyrir PFS að taka nýja ákvörðun haustið 2013 sem mæla myndi fyrir um hámarks lúkningarverð á árinu 2014. Nefndin taldi að sú aðferðarfræði að beita verðsamanburði við ríki á EES-svæðinu væri forsvaranleg en taldi að ekki hefðu verið nægilega mörg lönd búin að innleiða viðeigandi aðferðarfræði þegar PFS framkvæmdi verðsamanburðinn haustið 2012 en þau voru 7 talsins.

Þau ákvörðunardrög sem í dag voru send til ESA byggja á verðsamanburði við 14 EES-ríki þar sem niðurstaða um lúkningarverð samkvæmt viðeigandi aðferðarfræði lá fyrir þann 1. júlí s.l. Þá hafa 4 ríki til viðbótar beitt verðsamanburði líkt og PFS hyggst gera hér. Samtals eru ríkin því 18 fyrir utan Ísland. Nokkur ríki til viðbótar hafa auk þess tilkynnt um að þau hyggist byggja verð sín á umræddri aðferðarfræði á næstu mánuðum.

Drög að ofangreindi ákvörðun voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í dag með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka.

Eftirfarandi skjöl voru send til ESA:


Íslensk útgáfa af ákvörðunardrögunum:

Til baka