Hoppa yfir valmynd

Úttekt PFS á bókhaldslegum aðskilnaði og kostnaðarbókhaldi Íslandspósts

Tungumál EN
Heim
11. september 2013

Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú lokið fyrsta áfanga við úttekt stofnunarinnar á bókhaldslegum aðskilnaði og kostnaðarbókhaldi Íslandspósts.

Um er að ræða fyrstu heildstæðu úttekt stofnunarinnar á bókhaldi fyrirtækisins, en áður hafa einstakir þættir þess komið til skoðunar og þá helst í tengslum við samþykki stofnunarinnar á gjaldskrá innan einkaréttar.

Úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar birtist nú sem ákvörðun hennar nr. 18/2013.Samkvæmt ákvörðuninni er það megin niðurstaða stofnunarinnar að kostnaðarbókhald og bókhaldslegur aðskilnaður Íslandspósts byggi á viðurkenndri aðferðarfræði sem sé í samræmi við ákvæði laga nr. 19/2002 um póstþjónustu og reglugerð nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda.

Þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun telji að kostnaðarbókhald Íslandspósts sé í samræmi við viðurkennda aðferðarfræði þá telur stofnunin þörf á að gera ýmsar endurbætur er varða forsendur og framkvæmd. Í ákvörðuninni eru því nokkur fyrirmæli um úrbætur og frekari greiningar á kostnaði félagsins. Þar er helst að nefna:
  • Íslandspóstur skal uppfæra lýsingu á afkomulíkani félagsins og gera hana ítarlegri.
  • Íslandspóstur skal fjölga mælingum á bak við álagsstuðla og þá sérstaklega innan alþjónustu og skýrt komi fram hvort stuðlar séu byggðir á mælingum eða mati.
  • Íslandspóstur skal endurskoða mat á fastafjármunum, ávöxtunarkröfu og kostnaði vegna fjárfestinga.

Forsendum og útreikningum Íslandspósts á kostnaði vegna alþjónustukvaða sem fram koma í kostnaðarbókhaldi félagsins er hafnað og lagt fyrir Íslandspóst að gera ítarlegri greiningu á fjárhæð alþjónustukostnaðar félagsins, sem m.a. orsakast af alþjónustukvöð um daglegan útburð pósts alla virka daga. Stofnunin tekur hins vegar enga afstöðu til þess á þessu stigi hvort kostnaður Íslandspósts af alþjónustu sé meiri eða minni en sú upphæð sem millifærð er í kostnaðarbókhaldi félagsins.Þá er og kveðið á um að Íslandspóstur skuli afhenda Póst- og fjarskiptastofnun tímasetta aðgerðaráætlun um innleiðingu fyrirmæla fyrir 1. október nk. og að innleiðingu þeirra skuli að fullu lokið fyrir 1. apríl 2014.


Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 18/2013 - Úttekt á bókhaldslegum aðskilnaði og kostnaðarbókhaldi Íslandspósts ohf. (PDF)

Til baka