Hoppa yfir valmynd

Fyrirmæli PFS um úrbætur á rafmagnsgirðingu vegna truflunar á fjarskiptum

Tungumál EN
Heim
26. júní 2013

Þann 15. júní 2012 barst Póst- og fjarskiptastofnun kvörtun vegna truflana á fjarskiptasambandi um jarðsímalínu sem þjónustar heimabyggð kvartanda á Vestfjörðum. Var vísað til þess að umræddar truflanir væru að rekja til rafmagnsgirðingar, sem staðsett væri á nærliggjandi jörð þar sem ábúandi stundar nautgriparækt. Samkvæmt upplýsingum frá kvartanda lýstu truflanirnar sér í háværum smellum, sem gerðu munnleg samskipti í gegnum heimasíma erfiðleikum bundin, auk þess sem truflanirnar hefðu áhrif á gæði internetssambands, þar sem það hefði tilhneigingu til að hægja á sér eða frjósa alveg þegar þær væru sem mestar á símalínunni.

Í framhaldi af kvörtuninni réðist Póst- og fjarskiptastofnun í framkvæmd vettvangsathugunar ásamt starfsmönnum Mílu ehf. sem á og rekur þá símstrengi sem málið varðar. Niðurstöður prófana leiddu með ótvíræðum hætti í ljós að umrædd truflun væri til staðar og hana mætti rekja til rafmagnsgirðingarinnar á jörðinni, en á köflum liggur hún samsíða umræddum símstreng.

Ein af þeim ráðstöfnunum sem voru prófaðar í vettvangsathuguninni var að breyta uppsetningu girðingarinnar. Reyndist sú ráðstöfun gefa góðan árangur og voru ekki merkjanlegar truflanir á símalínunni jafnvel þótt kveikt væri á rafmagngirðingunni. Ábúandi jarðarinnar féllst á að breyta uppsetningu girðingarinnar með þessum hætti til bráðabirgða.

Hins vegar spratt upp ágreiningur milli ábúandans og Mílu ehf. um hver ætti að bera kostnaðinn af því að breytt uppsetning á girðingunni gæti orðið varanleg, en til þess að svo gæti orðið þyrfti meðal annars að koma fyrir hliði á umræddum kafla og endurnýja girðinguna á alls 3,2 km. kafla. Taldi ábúandi m.a. að fjarskiptatruflunin væri ekki á sína ábyrgð og að honum bæri ekki skylda til að bera kostnaðinn af nauðsynlegum úrbótum til að fyrirbyggja hana.

Í ákvörðun sinni sem hér er birt vísar PFS til þess að samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 njóta fjarskiptavirki (t.d. jarðsímastrengur) forgangs þegar önnur mannvirki (t.d. rafmagnsgirðing) hafa skaðlega truflandi áhrif á fjarskipti. Getur þá komið til þess að eigandi slíkra mannvirkja eða tækja þurfi á eigin kostnað að færa eða fjarlægja þau, gera úrbætur á þeim, t.d. að einangra betur og þétta til að koma í veg fyrir leiðni út frá þeim, haga uppsetningu þeirra eða frágangi á annan hátt o.s.frv. eða þar til ráðin hefur verið bót á trufluninni.

Í ljósi ofangreinds er það niðurstaða PFS að ábúandi jarðarinnar skuli ráðast í umrædda breytingu á girðingunni á eigin kostnað fyrir 8. júlí nk.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 7/2013 um fyrirmæli um úrbætur á rafmagnsgirðingu til að fyrirbyggja fjarskiptatruflanir (PDF)

 

 

Til baka