Hoppa yfir valmynd

Uppboði á tíðniheimildum fyrir 4G lokið hjá PFS

Tungumál EN
Heim
14. mars 2013

Í gær, 13. mars,  kl. 11:00, lauk rafrænu uppboði á tíðniheimildum fyrir 4G þjónustu sem haldið var á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar. Líkt og áður hefur komið fram tóku fjórir aðilar þátt í uppboðinu, þ.e. 365 miðlar ehf., Fjarskipti hf., Nova ehf. og Síminn hf.

PFS mun nú fara yfir framkvæmd uppboðsins í samræmi við skilmála þess. Að jafnaði skal sá aðili sem hæsta boð átti í tíðniheimild fá henni úthlutað, leiði yfirferð stofnunarinnar á framkvæmd uppboðsins ekki til annars, eða málefnaleg sjónarmið leiði til annarrar niðurstöðu. Áskilur stofnunin sér þrjár vikur til að ganga frá útgáfu heimildanna.

Heildarfjárhæð boða í allar tíðniheimildir var 225.120.000,- kr. en lágmarksboð hljóðuðu upp á 205.000.000,-. Munu endanlegir fjármunir renna til fjarskiptasjóðs, að frádregnum afslætti af tíðniheimild A. Afslátturinn er gefinn vegna mikilla uppbyggingarkrafna næstu kynslóðar farnets á tíðniheimild A sem gerðar eru í ljósi samfélagslegs mikilvægis þess.

365 miðlar ehf. áttu hæsta boð í tíðniheimildir A og B (2x15 MHz á 800 MHz tíðnisviðinu), Fjarskipti hf. átti hæsta boð í tíðniheimildir D, E og I (2x10 á 800 MHz og 2x5 á 1800 MHz tíðnisviðunum), Nova ehf. átti hæsta boð í tíðniheimildir C og J (2x5 á 800 MHz og 2x5 á 1800 MHz tíðnivsiðunum) og Síminn hf. átti hæsta boð í tíðniheimildir F, G og H (2x15 MHz á 1800 MHz tíðnisviðinu).

Niðurstaða uppboðsins þýðir að nýtt fjarskiptafyrirtæki, 365 miðlar, sækir nú inn á íslenskan fjarskiptamarkað.  Með því að bjóða í tíðniheimild A hefur fyrirtækið skuldbundið sig til að byggja upp næstu kynslóðar farnet sem ná skal til 99,5% íbúa á hverju skilgreindu landssvæði fyrir sig. Farnetið verður því eitt stærsta fjarskiptanet landsins. Uppbyggingu þess á að vera lokið fyrir lok árs 2016 og skal það þá bjóða upp á 10 Mb/s gagnaflutningshraða. Gagnaflutningshraðinn verður síðan aukinn og skal vera orðinn 30 Mb/s í lok árs 2020.

 

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá niðurstöður uppboðsins.  

Hæstbjóðandi Tíðnisvið Tíðniheimild Hæsta boð
365 miðlar ehf. 791-801/832-842 MHz A     100.000.000    
801-806/842-847 MHz B       20.000.000    
Fjarskipti hf. 811-816/852-857 MHz D       20.000.000    
816-821/857-862 MHz E       21.000.000    
1759-1764/1854-1859 MHz I         5.000.000    
Nova ehf. 806-811/847-852 MHz C       20.000.000    
1779-1784-1874-1879 MHz J       10.150.000    
Síminn hf. 1725-1730/1820-1825 MHz F         5.665.000    
1730-1735/1825-1830 MHz G         5.305.000    
1735-1740/1830-1835 MHz H       18.000.000    
Samtals:     225.120.000    

Frekari upplýsingar um uppboðið má nálgast með því að kynna sér eftirfarandi gögn:

 

 

 

Til baka