Hoppa yfir valmynd

Breyting á tímamælingum farsímafyrirtækja hefur áhrif á kostnað neytenda

Tungumál EN
Heim
21. apríl 2009

Í tilefni af nýjustu breytingum Símans og Vodafone á áskriftarleiðum sínum þar sem aðferðum við tímamælingu símtala er breytt vill PFS vekja athygli á áhrifum mismunandi aðferða við tímamælingu á gjaldfærslu símtala. Þegar símtal hefst er fyrst tekið upphafsgjald.  Þá um leið er einnig gjaldfært fyrir lágmarkslengd.  Þegar lágmarkslengd er liðin er gjaldfært fyrir hvert byrjað tímabil.  Tímabil lágmarkslengdar og tímabils er táknað í gjaldskrá með tveimur tölum með deilistriki á milli. Til dæmis þýðir tímamælingin 60/10 að lágmarkslengdin miðast við 60 sekúndur og síðan er gjaldfært fyrir hverjar byrjaðar 10 sekúndur eftir það.  Notandi sem talar í 62 sekúndur greiðir þannig upphafsgjald, lágmarkslengd 60 sekúndur og 10 sekúndur þar til viðbótar, þó hann hafi einungis notað 2 sekúndur af þessum 10.

Nú í mars síðastliðnum breytti Síminn tímamælingum sínum úr 60/10 í 60/60 og Vodafone mun einnig breyta úr 60/10 í 60/60 í maí. Samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi við tímamælingu símtala er aldrei rukkað fyrir minna en 60 sekúndur og eftir það fyrir hverjar byrjaðar 60 sekúndur, þar sem áður voru hverjar byrjaðar 10 sekúndur.  Það hefur í för með sér að símtöl sem eru lengri en 60 sekúndur munu nú hækka í verði, að öðru óbreyttu.
Ef skoðuð er notkun farsímans yfir lengra tímabil, t.d. einn mánuð, má að gera ráð fyrir að greitt sé að meðaltali fyrir 30 ónotaðar sekúndur í hverju símtali í stað 5 sekúndna áður, vegna þeirra símtala sem vara lengur en 60 sekúndur.   Neytendur eiga erfitt með að átta sig á þessu miðað við þær upplýsingar sem þeir hafa frá farsímafyrirtækjunum.  Því má gera ráð fyrir að miðað við almennar verðskrár felist dulin verðhækkun í ofangreindum breytingum.

Áhrif þessara breytinga verða mestar hjá þeim sem tala oft lengur en í eina mínútu.  Ef tekið er mið af dæminu um 62 sekúndna símtalið hér að ofan verður nú rukkað fyrir upphafsgjald, lágmarkslengd 60 sekúndur og 60 sekúndur til viðbótar, þó aðeins séu notaðar tvær. Hver hækkun símareiknings verður í raun, er mismunandi eftir símnotkun hvers og eins.  Meðalsímareikningur gæti hækkað yfir 10% í verði miðað við almenna verðskrá.
Önnur fyrirtæki en Síminn og Vodafone hafa ekki tilkynnt PFS um breytingar á tímamælingum en Tal hefur notað fyrirkomulagið 60/60 og Nova 30/30.

Réttur neytenda til að fá sundurliðað yfirlit yfir farsímanotkun sína
Rétt er að benda á að samkvæmt fjarskiptalögum hafa allir neytendur rétt á því að fá sundurliðað yfirlit yfir símtöl sín.  Með því að kynna sér slík yfirlit geta neytendur betur áttað sig á notkunarmynstri sínu og þannig tekið afstöðu til þess hvaða áskriftarleið er hagkvæmust.

Full ástæða er til að benda neytendum á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir hagsmunum sínum á þessum markaði eins og öðrum.  PFS er í samstarfi við aðra aðila sem sinna neytendamálum  hér á landi, t.d. Neytendastofu sem hefur látið þessi mál til sín taka í síauknum mæli, sbr. nýlega ákvörðun hennar vegna auglýsinga á þessum markaði.

Sjá nánar:

 

Til baka