Hoppa yfir valmynd

Bráðabirgðaákvörðun PFS vegna kröfu um afhendingu á verðtilboði í tiltekin sambönd yfir ljósleiðara

Tungumál EN
Heim
21. febrúar 2008

Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið bráðabirgðaákvörðun í máli Og fjarskipta ehf. (Vodafone) gegn Mílu ehf., þar sem Og fjarskipti ehf. krafðist þess að fá verðtilboð frá Mílu í tiltekin háhraða ljósleiðarasambönd í tengslum við útboð Farice hf. vegna nýs sæstrengs.

PFS féllst á það með Mílu að beiðni Vodafone um afhendingu verðtilboðs væri ekki eðlileg og sanngjörn krafa um aðgang að leigulínum, eins og atvikum væri háttað í málinu. Niðurstaða PFS réðst af þeirri staðreynd að Vodafone fór fram á aðgang að ljósleiðarasamböndum sem ekki eru tiltæk enn sem komið er, þar sem Míla hefur ekki enn lagt í þá fjárfestingu sem til þarf.

PFS komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að aðgangur sem þessi gæti talist eðlilegur og sanngjarn hefðu umrædd sambönd verið tiltæk og að slík sambönd féllu undir þær kvaðir sem PFS lagði á Mílu með ákvörðun PFS nr. 20/2007. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar ítarlegrar markaðsgreiningar PFS á leigulínumörkuðum og þar voru m.a. lagðar kvaðir á Mílu um að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að leigulínukerfum sínum, tryggja jafnræði milli tengdra og ótengdra fjarskiptafyrirtækja og að miða verðlagningu aðgangsins við tilkostnað að teknu tilliti til eðlilegs arðs af upphaflegri fjárfestingu.

Í ákvörðunarorðum segir m.a.:

Þau sambönd sem Míla ehf. hyggst bjóða Farice hf. í tengslum við fyrirhugað útboð, þ.e. 10x10 Gbps bylgjur á STM-64 sniði, falla undir þær kvaðir sem lagðar voru á Mílu ehf. með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 20/2007.

Fallist er á kröfu Mílu ehf. um að beiðni Og fjarskipta ehf. um afhendingu verðtilboðs í slík sambönd feli ekki í sér, eins og hér háttar til, eðlilega og sanngjarna kröfu um aðgang.

Ákvörðun til bráðabirgða nr. 4/2008 vegna kröfu um afhendingu á verðtilboði í tiltekin sambönd yfir ljósleiðara(PDF)

 

 

Til baka