Hoppa yfir valmynd

PFS birtir ákvörðun í kvörtunarmáli um ótakmarkað erlent niðurhal í ADSL þjónustu Símans hf.

Tungumál EN
Heim
14. febrúar 2008

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 3/2008 í kvörtunarmáli um ótakmarkað erlent niðurhal í ADSL þjónustu Símans hf.

Í máli þessu var kvartað til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þess að Síminn hafði takmarkað hraða á nettengingu kvartanda vegna óhóflegs erlends niðurhals þrátt fyrir að hann væri áskrifandi að ADSL-þjónustu sem Síminn auglýsti að fæli í sér ótakmarkað niðurhal.

 

Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a.:

Í því máli sem hér er til umfjöllunar er það álit Póst- og fjarskiptastofnunar að ekki hefur tekist að sýna fram á að skilmálar Símans vegna umræddrar þjónustu fari að einhverju leyti í bága við lög nr. 81/2003, um fjarskipti. Af þessum sökum er það mat Póst- og fjarskiptastofnunar að með framsendingu erindis kvartanda til Neytendastofu sé stofnunin að tryggja sem best hag kvartanda og annarra notenda í ADSL-þjónustu Símans. Er það einkum í ljósi þess að úrræði Neytendastofu til þess að bregðast við þeim starfsháttum fjarskiptafyrirtækja er varða villandi upplýsingar í auglýsingum eru mun ríkari en þau úrræði sem Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að beita. Til að mynda, geti auglýsandi ekki sýnt fram á að fullyrðingar í auglýsingum sínum séu réttar, brjóta auglýsingarnar í bága við ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Getur Neytendastofa þá lagt fyrir fyrirtæki að breyta auglýsingum, bannað birtingu þeirra og sektað umrædd fyrirtæki, (...).
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki heimildir til þess að beita fjarskiptafyrirtæki stjórnvaldssektum.

 

Í ákvörðunarorðum segir:

Sú takmörkun sem kveðið er á um í 14. gr. internetskilmála Símans hf. um að lækka tímabundið hraða á tengingu áskrifenda vegna erlends niðurhals sem fer umfram 20 Gb á 7 daga tímabili felur ekki í sér brot á ákvæðum laga um fjarskipti nr. 81/2003.

 

Póst- og fjarskiptastofnun er ekki bært stjórnvald til þess að skera úr um hvort kynningar og auglýsingar Símans fyrir ADSL þjónustu sína fela í sér óréttmæta viðskiptahætti. Kvörtun þar að lútandi, ásamt kröfu kvartanda um að Póst- og fjarskiptastofnun taki ákvörðun um að Síminn standi við fullyrðingar um ótakmarkað erlent niðurhal og aflétti hömlum á netaðgangi hans ásamt því að bæta honum það tjón sem takmarkaður netaðgangur hefur valdið honum, er vísað frá Póst- og fjarskiptastofnun og áframsend til Neytendastofu í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Afrit ákvörðunar þessarar er sent Neytendastofu.

Hér má lesa ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 3/2008 í kvörtunarmáli um ótakmarkað erlent niðurhal í ADSL þjónustu Símans hf. PDF)

 

Til baka