Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Skýringar við spurningalista

Skýringar við spurningalista í gæðakönnun PFS á netþjónustu í dreifbýli - desember 2010

Spurningalistinn er í fimm hlutum. Í fyrsta hluta er beðið um almennar upplýsingar og í hlutum A - D er spurt er um tiltekna þætti. (Sjá útfyllingareyðublað)
Í fyrsta hluta kemur fram hvaða fjarskiptafyrirtæki á í hlut, það svæði þar sem þjónustan er veitt og sú flutningstækni sem um ræðir. Ef fyrirtækið notar fleiri en eina tegund tækni til að flytja gögn á sama svæðinu, svo sem WiMax, xDSL, WiFi og/eða 3G Wireless Broadband, er ætlast til þess að skilað sé sérstöku blaði fyrir hverja flutningsaðferð – hér eftir kallað fjarskiptanet.
Hafa skal í huga að hér er ekki átt við búnað sem er innan veggja heimila, heldur fjarskiptanetið sjálft, þ.m.t. samtengingar þess við önnur fjarskiptanet, sem og aðgangstengingar til - og með - svokölluðum nettengipunkti heimilanna.
Spurt er um stöðu á tilteknu sex mánaða tímabili. Athugið að í sumum tilfellum er spurt um opinbera birtingu og í öðrum birtingu til núverandi viðskiptavina. Þetta er í samræmi við ákvæði í reglum stofnunarinnar í hverju tilfelli fyrir sig.

Hluti A - skv. 28. gr. reglna 1222 - Almennar spurningar:

Er öryggisstefna ykkar til staðar? – Hér er spurt hvort til staðar sé opinber stefna fjarskiptafyrirtækisins um virkni og öryggi fjarskiptaneta sinna. Á auðveldan hátt eiga neytendur að geta skoðað yfirlýsingu þess fjarskiptafyrirtækis sem þeir eru í viðskiptum við hvað þetta varðar og borið saman við stefnu annarra fyrirtækja. Einnig geta þeir borið stefnuna saman við þá virkni og öryggi sem þeir telja sig fá hjá fyrirtækinu.

Hvar birtið þið öryggisstefnuna? – Svarið segir til um hvar fyrrgreind stefna sé birt.

Fylgir öryggisstefnan með til PFS? – Stofnunin óskar eftir að fá afrit af fyrrgreindri stefnu ef hún hefur ekki ennþá verið birt opinberlega.

Meðal uppitími (%) – Hér er spurt um hver sé sá meðaltími sem fjarskiptanetið á svæðinu virkaði á tímabilinu. Ath. að skv. skilgreiningunni á fjarskiptaneti í inngangi er hér líka átt við tengipunkta viðskiptavina inn á fjarskiptanetið, sem og tengipunkta fjarskiptanetsins út á við, þ.e. við önnur fjarskiptanet. Svarboxið „skv. stefnu“ á að segja til um hvert sé markmið fjarskiptafyrirtækisins um meðal uppitíma. Markmiðið skal birta opinberlega í öryggisstefnunni.

Meðal endurreisnartími (mín) – Svarið segir til um þann tíma sem það tók að meðaltali að lagfæra truflanir og bilanir í fjarskiptanetinu á umræddu tímabili. Í öryggisstefnu fjarskiptafyrirtækisins skal setja markmið um þetta og stefnuna á að birta opinberlega.

Hámarksnýting nets (%) – Svarið segir til um hvernig fjarskiptafyrirtækið skilgreinir mestu heildarumferð um fjarskiptanetið miðað við það sem fyrirtækið telur hámarks afkastagetu þess, án þess að truflanir verði vegna umferðarálags. Almennt gildir að ef umferðin fer upp fyrir þau mörk sem fjarskiptafyrirtækið telur eðlilegt, er hætta á að hægist á netsamskiptum vegna yfirkeyrslu. Sjá jafnframt umfjöllum um „Jitter“ hér fyrir neðan.

Leiðbeiningar til neytenda um ábendingar – Hér er spurt hvort til séu leiðbeiningar fyrir neytendur um hvert þeir geti leitað með ábendingar til fjarskiptafyrirtækisins, telji þeir öryggi og virkni fjarskiptaneta þess ábótavant. Slíkar leiðbeiningar eiga öll fjarskiptafyrirtæki að birta opinberlega og á aðgengilegan hátt, m.a. markmið þar að lútandi í stefnu sinni.

Hluti B - skv. 24. gr. reglna 1222 - Spurningar um ósamfellda virkni og þjónustuviðmið þar að lútandi:

Þjónustuviðmið vegna tilkynninga? - Skv. reglum PFS er ætlast til þess að fjarskiptafyrirtæki setji sér viðmið um hvernig þau ætla að standa að því að tilkynna viðskiptavinum um bilanir eða um annað sem truflar rekstur fjarskiptaneta þess. Þessi viðmið skal birta opinberlega. Þau þurfa að lágmarki að innihalda upplýsingar um hvaða áhrif atvik hefur, eða getur haft, svo og skýringu á þeim ráðstöfunum sem fjarskiptafyrirtækið mun gera, ásamt ráðleggingum til viðskiptamanna ef svo ber undir.

Hvar eru þau birt? –Ofangreind viðmið þurfa annað hvort að koma fram á vefsíðu fjarskiptafyrirtækisins eða í samningum þess við viðskiptavini um kaup á þjónustu.

Fylgja þau viðmið með til PFS? - Stofnunin ætlast til að fá afrit af þessum viðmiðum.

Var viðskiptavinum tilkynnt um slík atvik á tímabilinu og hversu oft? – Spurt er hvort viðkomandi fjarskiptafyrirtæki hafi innan tímabilsins sem um ræðir, tilkynnt um atvik sem upp komu í fjarskiptanetum þess og þá hversu oft.


Hluti C - skv. 27. gr. reglna 1223 - Veitið þið aðgengi að eftirfarandi:

Vefsíðu til að mæla flutningshraða? – Stofnunin gerir þær kröfur að fjarskiptafyrirtæki starfræki hraðamælingabúnað fyrir viðskiptavini sína. Til að fá sem marktækastar mælingar er gerð sú krafa að búnaðurinn sé innan heildar IP nets viðkomandi fjarskiptafyrirtækis. Hann á ekki að vera í netum annars aðila. Mælipunktar eiga að vera við allar samtengingar við önnur fjarskiptafyrirtæki til að viðskiptavinir geti áttað sig á flutningshraða frá sér til mælipunkta í útjöðrum nets fjarskiptafyrirtækis síns. Einnig á að vera einn mælipunktur í miðju þess heildarnets sem fjarskiptafyrirtækið ræður yfir. Þegar út fyrir netið er komið, liggur í augum uppi að fjarskiptafyrirtækið getur ekki haft stjórn á hraða í netum annarra þar sem þau eru utan lögsögu viðkomandi. Dæmi um slíkt er þegar tengst er vefsíðum sem hýstar eru hjá öðru íslensku fjarskiptafyrirtæki, eða vefsíðum í öðrum löndum.

Atburðarskrá? – Hér er spurt hvort viðskiptavinir hafi aðgang að skráningu atburða sem valda, eða geta valdið, truflun í rekstri viðkomandi fjarskiptanets. Einnig er átt við atburði sem stefna, eða geta stefnt, öryggi er í voða gagnvart stórum hópi viðskiptavina.

Meðalálagi samtenginga síðustu 5 mín? – Viðskiptavinir eiga rétt á myndrænum upplýsingum í formi línurita sem sýna hvert hafi verið álagið á samtengingar neta fjarskiptafyrirtækisins við önnur fjarskiptanet á hverjum tíma yfir ákveðið tímabil. Mikið álag á samtengingar táknar yfirleitt hægari samskipti þegar tengst er út fyrir fjarskiptanet fjarskiptafyrirtækisins. Ef skoðað væri ákveðið svæði á landinu ætti línuritið að sýna álag á tilteknu sambandi sem tengir svæðið áfram við önnur fjarskiptanet. Einnig ætti að birta annað línurit sem sýnir álag á öllum samböndum viðkomandi fjarskiptafyrirtækis við IP net annarra fjarskiptafyrirtækja og fyrir hvert og eitt útlandasamband þess. Þessi gögn eiga að gera neytendum kleift að átta sig betur á hvort t.d. hægt netsamband er vegna flutningstregðu hjá því fjarskiptafyrirtæki sem þeir eru í viðskiptum við, eða af öðrum orsökum. Lágt álag á fjarskiptaleið sem tengir net svæðisins út fyrir net fjarskiptafyrirtækisins þýðir oftast að –ástæða hægagangsins er annars staðar, svo sem í yfirálagi á erlendi vefsíðu sem heimsótt er, eða á leiðinni þangað og þaðan. Ekki er óeðlilegt að þessi línurit nái yfir lengri tíma, svo sem eitt ár.

Markmið okkar er að meðalálag samtenginga stígi ekki hærra en (%) - Hér er spurt um markmið fyrirtækisins hvað varðar meðalálag yfir ákveðið tímabil.

Pakkatap í samtengingum síðustu 5 mín? – Spurt er hvort fjarskiptafyrirtækið veiti þessar upplýsingar sem auðvelda viðskiptavinum að átta sig á hægu netsambandi eða stöðvun/hökts einhverra aðgerða í netnotkun, svo sem þegar vefsíða hleðst óeðlilega hægt inn. Ætlast er til að þessar upplýsingar séu veittar myndrænt á sama hátt og lýst er í fyrri lið um meðalálag. Þó ber þess að geta að pakkatap getur verið af öðrum orsökum, t.d. af völdum bilana í netbúnaði og getur átt sér stað utan þess nets sem um er rætt. Þá er oft erfitt að rekja slíkt. Aðeins er gerð sú krafa að fjarskiptafyrirtæki gefir slíkar upplýsingar um pakkatap í eigin netum.

Markmið okkar er að pakkatap síðustu 5 mín. stígi ekki hærra en (%) - Hér er spurt um markmið fyrirtækisins um hámarks pakkatap sem stefnt er að.


Hluti D - skv. 27. gr. reglna 1223 - Birtið þið eftirfarandi opinberlega:

Pakkatöf (IP packet delay) að meðaltali? – Spurt er hvort þetta sé birt opinberlega skv. reglum stofnunarinnar. Það er gott fyrir viðskiptavini að kunna að lesa þessi gögn, sem segja til um töf gagnapakka í flutningi um fjarskiptanetið (sjá skilgreiningu á fjarskiptaneti í inngangi). Bæði pakkatöfin og breytileiki tafarinnar (e. jitter) sem spurt er um í næstu spurningu skiptir netnotendur töluverðu máli. Þar má nefna leikjaunnendur og netsímanotendur sem dæmi. Símtöl yfir netið, t.d. Skype símtöl, virka best þegar gildi pakkatafar er lágt, t.d. undir 200 milli-sekúndur. Athugið að fjarskiptafyrirtækið getur ekki birt slíkar upplýsingar nema úr eigin neti. Það þýðir að ef hringt er til Danmerkur sýnir uppgefið gildi aðeins hluta tafarinnar á allri leiðinni. Aftur á móti ætti uppgefið gildi að vera marktækt ef hringt er í aðila (eða spilaður við hann leikur) sem er innan sama fjarskiptanets.

Breytileika tafarinnar ( e. jitter) að meðaltali? – Það sama á við um þetta og pakkatöfina hér að ofan. Hér skal einnig birta línurit viðskiptavinum til upplýsingar. Hökt og göt geta myndast t.d í netsímanotkun (t.d Skype símtölum), við móttöku útvarpsefnis yfir Netið og á birtingu myndefnis, t.d. frá Youtube. Oftast er jitter besti og öruggasti mælikvarði um það hversu nálægt yfirkeyrslu einstök sambönd á flutningsleið eru komin – sjá um hámarksnýtingu hér að ofan. Einnig getur jitter sagt töluvert um það hvort um er að ræða svokallað "buffer-bloat" í samböndunum. Buffer-bloat er af mörgum talið eitt versta mein í nútíma nettækni. Um er að ræða vaxandi vanda í samskiptum einstakra netbeina (e. router) og netþjóna sem notendur sækja efni til. Algeng afleiðing er að niðurhal eða myndbönd frá t.d. YouTube stoppa alfarið.
Sjá meira um Buffer-bloat t.d. á vefsíðunni http://digital-rag.com/article.php/Buffer-Bloat-Packet-Loss

Hver sé meðal svartími í notendahjálp? – Spurt er hvort viðkomandi fjarskiptafyrirtæki birti gögn sem sýni þann tíma sem líður að meðaltali þangað til svarað er í þjónustunúmeri fyrirtækisins, þegar viðskiptavinir leita þangað með vandamál í sambandi við þjónustuna.

Hver er meðal viðbragðstími? – Spurt er hvort fyrirtækið birti gögn sem sýna þann viðbragstíma sem líður að meðaltali þangað til brugðist er við tilkynningum um bilanir.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?