Hoppa yfir valmynd

Framkvæmd fyrsta áfanga við lokun Símans hf. á talsímakerfinu

Tungumál EN
Heim

Framkvæmd fyrsta áfanga við lokun Símans hf. á talsímakerfinu

30. september 2020

Heimasími og farsími á borðiÁ morgun, þann 1. október 2020,  mun Síminn hf. hrinda af stað fyrsta áfanga í lokun á hinu gamla rásaskipta talsímakerfi. Áætlanir Símans hf. gera ráð fyrir því að kerfið verði að fullu niðurlagt á síðasta ársfjórðungi 2021.

Fjarskiptakerfi sem byggja á hliðrænni tækni (e. analogue) hafa á umliðnum árum verið að víkja fyrir stafrænum netum (e. digital) sem þykja hagkvæmari í rekstri og veita neytendum betri þjónustuupplifun. Með árunum hefur það reynst vera kostnaðarsamt og tæknilega flókið að viðhalda talsímakerfinu, en hætt er að framleiða ýmsan búnað sem styður við kerfið. Jafnframt krefjast slík net mun plássfrekari aðstöðu (húsnæði) en stafræn fjarskiptanet og í því felst jafnframt aukinn kostnaður, óhagræði og umhverfisspor.

Sú tækniumbreyting sem felst í því að hverfa frá hliðrænum fjarskiptanetum yfir í stafræn fjarskiptanet er því óumflýjanleg og hefur sú þróun átt sér stað um allan heim. Mörg ríki Evrópu hafa annað hvort lokið þessari umbreytingu eða eru langt komin með hana. Má þar nefna ríki á borð við Eistland, Holland, Noreg og Sviss. Þessi ríki eiga það sammerkt að útbreiðsla háhraðaneta er almennt góð, hvort sem um er að ræða fastanetstengingar eða farnetssambönd. Netrekendur talsímakerfa í öðrum ríkjum álfunnar eru flestir með tímasettar áætlanir um lokun kerfanna á allra næstu árum. 

Ísland stendur mjög framarlega í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að útbreiðslu háhraðaneta. Þannig hafa 96,9% landsmanna aðgang að háhraða fastanetstengingu (ljósleiðari eða VDSL) og 3G farnetsþjónusta nær til 99,97% landsmanna. Ísland er því vel í stakk búið til að mæta þeirri tækniumbreytingu sem framundan er.

Þó er ljóst, miðað við spálíkön Símans hf., að það verða nokkur tilvik, þar sem heimili eða  vinnustaðir munu missa allt fjarskiptasamband við lokun talsímakerfisins. Engin slík tilvik eru þó fyrirséð við lokun þessa fyrsta áfanga. Til að bregðast við stöðunni hefur Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) útnefnt Neyðarlínuna ohf. sem alþjónustuveitanda til að útvega fjarskiptatenginu fyrir símaþjónustu og nothæfa internetþjónustu í þessum sérstöku tilvikum, sbr. ákvörðun nr. 9/2020. Enginn á því að verða sambandslaus eftir að gamla talsímakerfinu hefur verið lokað

Einnig liggur fyrir að einhverjir notendur þurfi að gera breytingar á fjarskiptaþjónustu sinni við lokun talsímakerfisins, t.d. að panta stafræna símaþjónustu (VoIP) um koparheimtaugina, sem áfram verður í notkun þrátt fyrir lokun talsímakerfisins, eða virkja ljósleiðaratengingu sem búið er að leggja að húsi. Í slíkum tilvikum leiðbeinir PFS notendum að hafa samband við þjónustuveitanda sinn um breytingar á þjónustu.   

 

Til baka